Staða framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) var auglýst í dagblöðum um helgina og rennur umsóknarfrestur út 3. júní næstkomandi. Greint var frá því eftir miðjan apríl síðastliðinn að Friðrik J. Arngrímsson ætli að hætta sem framkvæmdstjóri LÍÚ eftir þrettán og hálft ár í brúnni.

Í auglýsingunni kemur fram að eftirmaður Friðriks verði að vera öflugur til krefjandi stjórnunar- og leiðtogastarfa þar sem reyni á samskiptahæfni, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð. Hann þarf að vera háskólamenntaður, með reynslu af stjórnunarstörfum, þekking á sjávarútvegi er æskileg, reynsla af erlendri samvinnu sömuleiðis og að samskipahæfileikar hans séu framúrskarandi. Þá verður hann að búa yfir miklum frumkvæðis- og skipulagshæfileikum, góðri færni í að tjá sig í ræðu og riti auk góðrar tungumálakunnáttu en skilyrði er að nýr framkvæmdastjóri LÍÚ getið skilið og tjáð sig a.m.k. á ensku og einu Norðurlandamálanna.