Starf seðlabankastjóra breska seðlabankans losnar í júní á næsta ári. Sir Mervyn King hefur verið seðlabankastjóri Bretlands frá því í júlí 2003 og hefur hann verði sagður einn valdamesti maður í bresku efnahagslífi. Starf eftirmanns hans er auglýst í nýjasta tölublaði vikuritsins Economist.

Í starfslýsingu segir að nýr seðlabankastjóri þurfi að leiða bankann í gegnum miklar breytingar á regluverki sem feli meðal annars í sér nýjar skyldur sem snúa að því að standa vörð um stöðugleika í breska efnahagslífinu.

Seðlabankastjórinn þarf að vinna náið með fjármálaráðherra Bretlands.

Í auglýsingunni segir að sá sem sækir um stöðuna þurfi að hafa leiðtogahæfileika, framúrskarandi þekkingu á fjármálamörkuðum og hagfræði. Á meðal skilyrðanna eru að viðkomandi hafi unnið í seðlabanka eða stofnun af svipaðri stærðargráðu. Sé þeim kröfum ekki fullnægt er látið nægja að viðkomandi hafi gegnt stjórnendastöðu í banka eða fjármálafyrirtæki.

Adair Turner, formaður Fjármálaeftirlits Bretlands (FSA), hefur verið nefndur sem hugsanlegur arftaki sir Mervyn King.