Verkís er ein elsta verkfræðistofa landsins en þar starfa yfir 320 starfsmenn. Stofan er með verkefni um allan heim, þ. á m. í Eþjópíu, Keníu, Tansaníu og Noregi.

Verkís er elsta verkfræðistofa landsins en hún rekur uppruna sinn aftur til ársins 1932 en í dag starfa yfir 320 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Að sögn Egils Viðarssonar, sviðsstjóra hjá samgöngu- og umhverfissviði og einn af viðskiptastjórum Verkís er Verkís að vinna að fjölda verkefna. Meirihluti verkefna Verkís er eðli málsins samkvæmt á Íslandi en fyrirtækið er þó að vinna að verkefnum um allan heim.

„Þau eru mjög mis stór verkefnin," segir Egill. „Í Keníu, Eþjópíu og Tyrklandi erum við að vinna í jarðvarma, það eru stærstu verkefnin. Síðan eru minni verkefni þar sem t.d. einn eða hálfur maður kemur að.“

Egill segir að í þeim tilvikum eru þeir oft fengnir inn sem ráðgjafar, t.d. til að fara yfir gögn annarra. „Við erum með vatnsaflsverkefni í Georgíu og þar eru líka möguleiki á fleiri verkefnum. Við höfum líka verið að vinna fyrir norska þróunarsjóði í Tansaníu, en það eru verkefni sem við fengum sem þróunarverkefni í gegnum Noreg.“

Egill segir að Verkís hafi meðal annars fengið þau verkefni í gegnum tengsl fyrirtækisins í Noregi. „Við höfum verið að vinna í vatnsaflsverkefnum í Noregi. Við vorum með sérstakt leyfi frá orkustofnun Noregs til að hanna þar ákveðna hluti, s.s. stíflur og flóðareikninga og annað.“

Undanfarin ár hafa um 25% til 30% af tekjum Verkís komið frá Noregi, en fyrirtækið er með fimm til sjö manna starfstöð í Noregi. Egill segir að sú starfsemi hafi farið aðeins minnkandi undanfarið, en það sé annars vegar rakið til aukinnar samkeppni í Noregi vegna samdráttar í olíuiðnaði og hins vegar vegna styrkingar krónunnar.

Nánar er fjallað um málið í Verk og vit, sérblaði sem fylgdi með Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning .