Stjórn og starfsfólk Spron frétti fyrst af því í beinni útsendingu í útvarpi að grundvöllur fyrir rekstri sparisjóðsins væri brostinn og að Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir stjórn hans. Ástæðan er sú að Fjármálaeftirlitið hafði í aðdraganda yfirtökunnar látið loka símum starfsfólks sem voru skráðir á Spron. Þetta var í mars árið 2009.

Vildu ekki bjarga Spron

Ítarlega er greint frá atburðarásinni í nýrri bók um sögu Spron. Þar kemur m.a. fram að stjórnvöld hafi virt að vettugi þær aðgerðir sem stjórn og stjórnendur Spron stóðu í ásamt kröfuhöfum og segir í bókinni að hefði getað komið rekstrinum fyrir horn í kjölfar bankahrunsins. Stjórnvöld, ekki síst Gylfi Magnússon, þá viðskiptaráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, eru jafnframt sagðir hafa haft lítinn áhuga á að koma sparisjóðnum til bjargar og lokað augunum fyrir þeim tillögum sem stjórn Spron lagði fyrir þá. Þá segir í bókinni að margt bendi til þess að komast hefði mátt hjá falli Spron. Í stað þess að koma honum til hjálpar beitti ríkisvaldið handaflsaðgerð til að knésetja sparisjóðinn.

SPRON
SPRON
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Bókin heitir Hugsjónir, fjármál og pólitík og er hún eftir sagnfræðinginn Árna H. Kristjánsson. Í bókinni er stuðst við fjölda heimilda, svo sem fundargerðir stjórnar Spron auk minnispunkta og annarra heimilda sparisjóðsstjóranna Baldvins Tryggvasonar og Guðmundar Haukssonar auk Jóns G. Tómassonar, fyrrverandi borgarlögmanns og formanns stjórnar Spron um árabil.

Í bókinni segir orðrétt um yfirtökuna á Spron í mars árið 2009:

„Á meðan stjórn SPRON sat á fundi við að semja tilkynninguna til FME [innskot: þess efnis að stjórn SPRON sæi sig tilneydda til að tilkynna FME formlega að hana skorti heimild til frekari reksturs sparisjóðsins] barst forstjóra óvænt símtal. Fréttamaður hringdi og sagðist hafa fengið boð á blaðamannafund sem hæfist eftir 20 mínútur og snerist um yfirtöku stjórnvalda á SPRON. Stjórnarmenn urðu forviða enda höfðu þeir ekki lokið við semja tilkynninguna. Ólafi Haraldssyni [innskot: framkvæmdastjóra rekstrarsviðs] var falið að hafa samband við yfirmenn sjóðsins til þess að koma tíðindunum á framfæri við starfsfólk. Þá kom í ljós að FME hafði látið loka símum starfsfólks sem voru skráðir á SPRON. Því gafst ekki ráðrúm til að gera starfsfólki viðvart um yfirtökuna áður en hennar yrði getið í fjölmiðlum. Bein útsending var síðan frá fundi Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra með fréttamönnum. Stjórn og starfsfólk SPRON fékk því fréttirnar beint af vörum viðskiptaráðherra í útvarpinu. Segja má að stjórnvöld hafi með þessu bitið höfuðið af skömminni í meðferð mála er vörðuðu SPRON.“