Starfsfólki utanríkisráðuneytisins fækkaði um 30 á síðasta ári. Auk þess að segja fólki upp var fólki fækkað með því að framlengja ekki tímabundna samninga. Þá fóru einhverjir er í launalaust leyfi og var ekki endurráðið í lausar stöður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðmála.

„Áætlanir gera ráð fyrir að starfsfólki muni áfram fækka um fimm á þessu ári og því næsta,“ segir í skýrslunni.  Eftir hrun eða árið 2009 var sendiráðsbústaðurinn í London seldur fyrir um 1.7 milljarða króna og annar keyptur fyrir 835 milljónir.

Árið 2010 var bústaðurinn í New York seldur fyrir ríflega hálfan milljarð króna en enginn hefur verið keyptur í staðinn heldur hefur verið leigður sendiráðssbústaður. „Í samræmi við tillögu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar verður nú aftur gerð úttekt á húseignum ráðuneytisins erlendis og metið hvort hagstætt sé að selja fleiri eignir og finna ódýrari úrræði,“ segir í skýrslunni.