Jörg Asmussen, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópska Seðlabankans, talaði af sér á fundi sem haldinn var á vegum hugveitunnar IIEA. Asmussen hefur stýrt ráðgjafahóp Evrópska Seðlabankans á Írlandi, sem margir halda fram að stjórni í raun efnahagsmálum þar í landi.

Á fundinum sagði hann að nauðsynlegt hafi verið að írska ríkið greiddi skuldabréfaeigendum Anglo Irish Bank að fullu, eins og gert var í kjölfar þjóðnýtingar bankans í lok árs 2008. Sagði hann að þetta hafi verið gert til að koma í veg fyrir að gjaldþrot bankans smitaði aðra banka á Írlandi eða í öðrum Evrópuríkjum.

Þar talaði Asmussen af sér, því þýskir bankar voru stór hluti kröfuhafa Anglo Irish, en því hefur alltaf verið neitað að tilgangurinn hafi verið að bjarga þeim. Starfsmenn seðlabankans brugðust skjótt við og strokuðu út úr ræðunni vísunina í evrópska banka.