Trausti Hafsteinsson og Sigurjón Egilsson voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af kröfu Franklíns Kristins Stiner um ómerkingu ummæla. Jafnframt voru þeir sýknaðir af miskabótakröfu Franklíns, en hann krafðist 1.000.000 króna miskabóta frá hvorum þeirra.

Ummælin sem málið snérist um birtust í Blaðinu 9. nóvember 2006.  Meðal þeirra  voru t.d. „Mesti fíkniefnasali landsins vann í skjóli lögreglunnar“ og „Þrátt fyrir að Franklín Steiner væri einn umsvifamesti eiturlyfjasali landsins hafði fíkniefnadeildin lítil afskipti af honum.“

Franklín sagði þessi ummæli vera hreinan uppspuna, tilhæfulaus og smekklaus. Hann taldi virðingu sína hafa beðið töluverða hnekki vegna þeirra, þar sem Blaðið er borið út á heimili víða um land.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að öll ummælin snúi að atvikum sem gerðust fyrir um áratug og vísi öll til Franklíns í þátíð. Hann hafi verið dæmdur í Hæstarétti vegna ítrekaðra brota á fíkniefnalöggjöfinni. Því sé ekki fallist á að ummælin séu hreinn uppspuni. Þá sé ekki unnt að fallast á að nefnd ummæli séu til þess fallin að sverta ímynd Franklíns, þegar fyrir liggji hvaða ímynd hann skapaði sér sjálfur með háttsemi þeirri sem hann hefur verið margdæmdur fyrir.

Enn fremur hafi Franklín ekki verið miðdepill umfjöllunar Blaðsins, sem einkum snýr að því að gagnrýna starfsaðferðir lögreglu. Að þessu virtu var kröfu Franklíns um ómerkingu ummæla og miskabætur hafnað.

Franklín var dæmdur til að greiða Trausta og Sigurjóni 250.000 kr. í málskostnað, hvorum fyrir sig.