Allir fastráðnir starfsmenn Icelandair Group og dótturfélaga fá í næstu viku greidda allt að 100 þúsund króna bónusgreiðslu.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem var sendur starfsmönnum í dag. Þar kemur fram að stjórn Icelandair Group hafi ákveðið að greiða fastráðnum starfsmönnum fyrirtækisins umbun vegna framúrskarandi árangurs rekstrarárið 2012. Þeir starfsmenn sem störfuðu hjá fyrirtækinu í lok árs 2012 og unnu að lágmarki 6 mánuði á árinu fá umrædda greiðslu.

Samkvæmt ársskýrslu Icelandair Group fyrir árið 2012 störfuðu að meðaltali um 2.530 manns hjá fyrirtæki á síðasta ári. Hér er átt við fastráðna starfsmenn í fullu starfi. Samkvæmt því kostar fyrrnefnd bónusgreiðsla félagið um 253 milljónir króna.