Kaupþing lánaði helstu stjórnendum bankans og völdum starfsmönnum hans alls 43 milljarða króna án veða í gegnum fjárfestingasjóðinn Kaupthing Capital Partners II Fund (KCPII). Þar af fengu Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Helgi Bergs 5,3 milljarða króna. Þessar lánveitingar voru viðbót við þá 45 miljarða króna sem starfsmenn bankans höfðu fengið að láni til að kaupa hlutabréf í honum.

Því fengu starfsmenn Kaupþings hátt í 100 milljarða króna lánaða, án veða, til að fjárfesta í bankanum sjálfur og sjóði sem stjórnað var af honum. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Lánin þykja „athyglisverð“

Í skýrslunni segir að „lánafyrirgreiðsla til æðstu stjórnenda Kaupþings vegna fjárfestinga þeirra í Kaupthing Capital Partners II Fund er athyglisverð. Samskipti starfsmannanna sjálfra í tölvupóstum benda m.a. til að lánin hafi verið veitt án veða og/eða starfsmenn Kaupþings hafi veðsett sömu bréf oftar en einu sinni.“

Lánin vegna fjárfestinga starfsmanna í KCPII hafi numið „um 109 milljónum punda eða rúmlega 19 milljörðum króna miða við gengi krónunnar við fall bankans. Kaupthing Capital Partners II fékk svo samþykkta lánafyrirgreiðslu fyrir alls 137 milljónum punda sem samsvarar 24 milljörðum króna. [...] Stærstur hluti þessara 43 milljarða króna vegna Kaupthing Capital Partners (19 milljarðar beint til stjórnenda) er því viðbót við þá 45 milljarða sem æðstu stjórnendur Kaupþings höfðu þegar fengið í lán hjá bankanum í árslok 2007.“

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .