Úr úttekt Viðskiptablaðsins á fjárhag Reykjavíkurborgar:

Langstærstu útgjaldaliðir Reykjavíkurborgar eru annars vegar laun, sem munu að óbreyttu nema 47,3 milljörðum króna á árinu og hins vegar annar rekstrarkostnaður, sem stefnir í 36,9 milljarða. Stöðugildum hjá A-hluta borgarinnar hefur fjölgað undanfarin ár, voru 6.308 talsins árið 2009, en eru nú 6.899. Þeim hefur því fjölgað um 591, en þar af eru 404 stöðugildi sem bættust við vegna málaflokks fatlaðra.

Stöðugildum fjölgað umfram íbúafjölgun

Ef litið er framhjá mögulegum samlegðaráhrifum eða stærðarhagkvæmni og til einföldunar gengið út frá því að borgarstarfsmönnum þurfi að fjölga í hlutfalli við fólksfjölgun hefur aukning á fjölda borgarstarfsmanna verið umfram fjölgun íbúa í Reykjavík, eftir að leiðrétt hefur verið fyrir fjölgun starfsmanna vegna málaflokks fatlaðra.

Á meðan íbúum fjölgaði úr 119.547 í 121.960 eða um 2,02% á milli áranna 2009 og 2015 hefur stöðugildum hjá borginni fjölgað úr 6.308 í 6.495 (að frádregnum stöðugildum vegna málaflokks fatlaðra) á sama tíma, eða um 2,96%. Það er tæplega 50% meiri fjölgun en íbúafjöldi einn og sér gefur tilefni til, en 66 þessara stöðugilda bættust við á fyrri helmingi þessa árs. Sú þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir aðvaranir fjármálaskrifstofu um háan og hækkandi launakostnað hjá borginni. Ofangreint bendir til þess að ekki hefur verið brugðist við þessum ábendingum eða gripið til nægra aðgerða til að halda aftur af útgjaldaaukningu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .