Breski verkamannaflokkurinn hefur kosið sér nýjan leiðtoga. Sá heitir Keir Starmer en hann tekur við keflinu af Jeremy Corbyn. Corbyn greindi undir lok síðasta árs frá því að hann ætlaði sér að hætta sem leiðtogi flokksins og mun hann nú láta verða af því. BBC greinir frá.

Eftir að hafa sigrað leiðtogakjörið lét Starmer hafa eftir sér að hann hugðist leiða verkamannaflokkinn „inn í nýja tíma með sjálfsöryggi og von í hjarta." Þær Rebecca Long-Bailey og Lisa Nandy sóttust einnig eftir að leiða Verkamannaflokkinn en þurftu að lúta í lægra haldi gegn Starmer. Starmer hlaut 56,2% atkvæða, Long-Bailey 27,6% og Nandy 16,2%.

Eftir að hafa sigrað kjörið ræddi Starmer við forsætisráðherrann Boris Johnson og ákváðu þeir að funda í næstu viku til að fara yfir þá krísu sem þjóðin stendur frammi fyrir vegna kórónuveirunnar.