Fari svo að Bryndís Hlöðversdóttir verði formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna hyggst fyrrverandi formaður VR, Stefán Einar Stefánsson, að flytja sig í annan lífeyrissjóð. Kemur þetta fram í færslu á Facebook-síðu hans, en þar gerir hann mikið úr því að Bryndís sé fyrrverandi alþingismaður og trúnaðarmaður Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.

Hann segir að sú ákvörðun að skipa Bryndísi í stjórn lífeyrissjóðsins sé afglöp „enda hefur verið reynt á síðustu árum að tryggja að stjórnmálamenn hafi ekki aðkomu að sjóðunum. Ég hyggst flytja mig í annan lífeyrissjóð ef þetta verður niðurstaðan, sjóð þar sem menn hafa vit á að velja fagmenn til forystu, en ekki flokksgæðinga.“

Í athugasemdum við færsluna heldur Stefán áfram gagnrýninni og segir að Árni Páll hafi greitt félagsgjöld fyrir formannsframbjóðanda inn í VR til að hún gæti boðið sig fram og á þar við um núverandi formann, Ólafíu B. Rafnsdóttur.

„Það er verið að stjórnmálavæða VR með ógeðfelldum hætti. Bjarni Þór Sigurðsson, stjórnarmaður í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík var sömuleiðis kjörinn varaformaður félagsins.“

Viðbót kl. 12:35.

Vb.is hefur borist athugasemd frá Bjarna Þór Sigurðssyni, sem segist hvorki vera stjórnarmaður í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík né á landsvísu. Hann sé vissulega skráður í Samfylkinguna, en hann sé ekki stjórn Samfylkingarfélagsins eða flokksins.