Stjórn VR virðist hafa gert tvenn mjög alvarleg mistök við tilnefningu fjögurra fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna þegar hún tilnefndi fulltrúa í stjórn sjóðsins á sínum fyrsta stjórnarfundi sl. miðvikudag.

Þetta segir Stefán Einar Stefánsson, fv. formaður VR, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Stefán Einar leggur í grein sinni áherslu á það að vandað sé til verka við fyrrnefnda tilnefningu enda haldi sjóðurinn utan um réttindi 140 þúsund einstaklinga og eignir sjóðsins nemi í dag rúmum 400 milljörðum króna.

Stefán Einar segir að stjórnin hafi gengið að kröfu nýkjörins formanns, Ólafíu B. Rafnsdóttur, þess efnis að tilefna Bryndís Hlöðversdóttur, fv. þingmann Samfylkingarinnar, sem nýjan stjórnarformann lífeyrissjóðsins. Þá hafi tillagana ekki verið borin undir og rædd í Trúnaðarráði félagsins eins og lög þess geri ráð fyrir.

„Engin ástæða er til að fara nánar út í fyrra atriðið, svo augljós eru hin pólitísku fingraför,“ segir Stefán Einar í grein sinni og vísar þar til þess að Ólafía hafi verið kosningastjóri Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.

„Þó ber þess að geta að forsvarsmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa reynt í lengstu lög á síðustu árum að halda stjórnmálastéttinni utan við þá hagsmuni sem sjóðnum er ætlað að verja.“

Þá segir Stefán Einar að seinna atriðið sé mun alvarlega, þ.e. að hafa ekki tekið málið upp í Trúnaðarráði VR. Ráðið er samsett af 18 stjórnar- og varastjórnarmönnum, 82 einstaklingum sem kjörnir eru listakosningu og 6 einstaklingum sem skipa stjórnir deilda félagsins á Austurlandi og í Vestmannaeyjum.

„Þegar núverandi formaður VR bauð sig fram til embættisins, lagði hún mikla áherslu á að virkja Trúnaðarráð félagsins enn frekar,“ segir Stefán Einar.

„Taldi hún að leita þyrfti meira í „grasrótina“ og kalla eftir viðhorfi félagsmanna þegar meiriháttar ákvarðanir væru teknar á vettvangi félagsins. Nú ber svo við að Trúnaðarráð félagsins hefur tilteknum skyldum að gegna lögum samkvæmt og á síðustu tveimur árum hefur það í æ meira mæli verið kallað til við ákvarðanatöku. Helstu dæmin um það tengjast endurskoðun núverandi kjarasamnings félagsins en hún hefur tvívegis farið fram, í janúar 2012 og 2013.“

Þá segir Stefán Einar jafnframt að samkvæmt lögum félagsins eigi trúnaðarráðið að vera stjórn VR til ráðgjafar varðandi ýmis stærri málefni, s.s. við gerð kjarasamninga og meiriháttar framkvæmda á vefum félagsins.

„Ljóst er að tilnefning í stjórn lífeyrissjóðsins er ein sú veigamesta ákvörðun sem stjórnin tekur á hverjum tíma og því er ljóst að hún fellur undir 14. greinina [í lögum VR] og Trúnaðarráðið hefði alltaf átt að vera til umsagnar um hana,“ segir Stefán Einar.

„Í fyrri tíð, þegar tilnefning til stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur verið ákvörðuð, hafa formenn VR gengið mun lengra í þeirri viðleitni að kalla eftir viðhorfi félagsmanna til ákvörðunarinnar. Tilnefningin var ætíð tekin til umræðu og afgreiðslu á svokölluðum nýársfundi sem haldinn var með stjórn, Trúnaðarráði og trúnaðarmönnum en fundarsetu á þeim fundum höfðu allt að 300 manns. Nú þykir formanni félagsins tilhlýðilegt að ganga frá málinu á lokuðum fundi fimmtán stjórnarmanna og þriggja varamanna.“