Stefán Jón Friðriksson, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu og ritari framkvæmdanefndar um einkavæðingu, hefur verið ráðinn svæðisstjóri fyrir Ísland hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Svæðisstjóri á Íslandi ber ábyrgð á samskiptum við viðskiptavini bankans hér á landi og annist lánveitingar og tengsl við alþjóðlegan fjármálamarkað vegna lána NIB til íslenskra aðila.

Stefán er viðskiptafræðingur að mennt. Hann lauk M.Sc. prófi frá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn að loknu cand.oecon prófi frá Háskóla Íslands. Stefán hefur starfað sem sérfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu ásamt því að vera ritari einkavæðingarnefndar frá árinu 2003 . Hann tekur við starfinu hjá NIB hinn 1. janúar næstkomandi af Benedikt Árnasyni, sem tekið hefur við stöðu aðstoðarforstjóra Askar Capital.

Norræni fjárfestingarbankinn er fjölþjóðleg fjármálastofnun í eigu Norðurlanda. Bankinn veitir lán á markaðskjörum til fjárfestinga sem fela í sér norræna hagsmuni, bæði innan Norðurlanda og utan. NIB fjármagnar útlánastarfsemi sína með lántökum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði og nýtur besta lántrausts, AAA/Aaa. NIB er einn stærsti erlendi lánveitandinn á Íslandi og nema lán bankans hér á landi u.þ.b. 750 milljónum evra eða um 70 milljörðum króna. Útborguð lán bankans til íslenskra lántakenda á síðasta ári námu að fjárhæð tæplega 15 milljörðum króna. Stærstu lántakendur NIB á Íslandi eru orkufyrirtæki, önnur stór fyrirtæki bæði í einkaeigu og opinberri, sveitarfélög og lánastofnanir.