Stefán Rafn Sigurbjörnsson býður sig fram til formanns Ungra jafnaðarmanna á landsþingi samtakanna helgina 28. - 29 september næstkomandi.

Stefán er 23 ára og stundar nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Árin 2010 - 2012 sat Stefán í Stúdentaráði HÍ sem oddviti Skrökvu og sat í stjórn Politica, nemendafélagi stjórnmálafræðinema eins og segir í tilkynningu. Hann starfar sem verkefnastjóri fyrir Samband íslenskra framhaldsskólanema.

„Ég stefni á að gera Unga jafnaðarmenn að öflugu hagsmunaafli innan Samfylkingarinnar, en okkar markmið er að vinna skoðunum og stefnumálum ungs fólks brautargengi. Jafnframt tel ég Samfylkinguna smám saman vera að fjarlægjast þau frjálslyndu gildi sem einkenna marga jafnaðarmannaflokka í nágrannaríkjum okkar. Nauðsynlegt er að jafnaðarmenn ítreki það að frelsi og frjálslyndi eru ekki einkamál hægrimanna. Einnig tel ég mikilvægt að Ungir jafnaðarmenn krefji Samfylkinguna um aukið umburðarlyndi gagnvart þeim sem ekki hafa sömu stjórnmálaskoðanir og flokksmenn. Samfylkingin á að hafa burði til að vera það stjórnmálaafl sem getur sameinað ólíkar hugsjónir með virðingu í orðræðu og málefnalegri rökræðu," segir Stefán í tilkynningu.