Eftir kaup fasteignafélagsins Regins á Klasa fasteignafélagi mun tegund leigurýma eftir starfsemi dreifast frá því sem nú er og vægi verslunarhúsnæðis minnka úr 43 % í 42%. Á móti eykst vægi skrifstofuhúsnæðis úr 21% í 26%. Vodafone er stærsti leigutaki Klasa með um 26% af leigutekjum. Hagar og Reykjavíkurborg eru stærstu leigutakar Regins.

Í kynningu tengdri kaupunum segir að gert sé ráð fyrir því í fjárfestingarstefnu Regina að eignasafn félagsins allt að tvöfaldist á næstu fimm árum.

Greint var frá fyrirhuguðum kaupum Regins á Klasa um miðjan nóvember í fyrra. Kaupin miðuðu við að heildarvirði Klasa sé 8.250 milljónir króna. Núverandi eigendur Klasa eru einkafjárfestar og munu þeir eignast um 9% hlut í Reginn ef af kaupum verður. Félagið Sigla ehf. er seljandi 95% hlutar í Klasa fasteignum og mun eftir viðskiptin eignast um 8,6% hlut í Reginn og yrði því með stærstu hluthöfum í félaginu. Eigendur Siglu ehf eru Tómas Kristjánsson og Finnur Reyr Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjórar hjá Glitni.

Fram kemur í kynningu vegna kaupa Regins á Klasa að áreiðanleikakönnun vegna kaupanna lauk 20. desember síðastliðinn og var kaupsamningur undirritaður 21. desember. Hluthafafundur hefur verið boðaður hjá Regin 11. febrúar næstkomandi. Búist er við að samþykki Samkeppniseftirlitinu vegna samruna félaganna liggi fyrir í lok apríl næstkomandi og geti samruni félaganna gengið í gegn í kjölfarið.

Stærstu leigutakar Klasa nú eru Vodafone, Hagkaup, Árvakur, Garðabær og Víðir. Helstu leigutakar Regins voru um síðustu áramót Hagar og Reykjavíkurborg. Gert er ráð fyrir því að eftir kaupin verði helstu leigutakarnir Hagar, Reykjavíkurborg, Vodafone, Verkís, Egilshallarbíó og Árvakur.