Flugfélagið Play stefnir á að fyrsta áætlunarflugið verði þann 24. júní næstkomandi. Búist er við því að áfangastaðurinn verði tilkynntur bráðlega. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fara stjórnendur Play með upplýsingar um fyrsta áfangastaðinn sem hreint hernaðarleyndarmál.

Lokaúttektir Samgöngustofu stendur nú yfir og gert er ráð fyrir að Play fái útgefið flugrekstrarleyfi í byrjun maí. Þrjár Airbus-vélar af gerðinni A321-NEO, sem rúma um 244 farþega, verða skráðar á leyfið.

Play lauk 40 milljóna dala fjármögnunarlotu fyrr í mánuðinum. Fyrir rúmri viku síðan birti flugfélagið hluthafalista á heimasíðu sinni. Þrír stærstu hluthafar Play eru eignarhaldsfélagið Fea með 21,3% hlut, Birta lífeyrissjóður með 12,6% hlut og Fiskisund ehf. með 11,9% hlut.

Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun mars að flugfélagið stefnir á skráningu á First-north markaðinn á næstunni. Birgir Jónsson var ráðinn forstjóri Play fyrr í mánuðinum.