Íbúðalánasjóður stefnir að því að selja allar íbúðir sem sjóðurinn á í Árborg á þessu ári. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að áttatíu íbúðir í eigu sjóðsins standa auðar í svetiarfélaginu. Bæjarstjórn Árborgar hefur lýst áhyggjum af skorti á leiguíbúðum í sveitarfélaginu og óskað eftir því að sjóðurinn komi eignunum í útleigu eða sölu.

„Meginmarkmið okkar er að selja eignir, segir Sigurður Erlingsson forstjóri Íbúðalánasjóðs við Morgunblaðið. Spurður út í stöðuna í Árborg segir Sigurður að nokkur styr hafi staðið um tvær stórar blokkir en þær séu báðar í sölu. Stefnt er að því að lokið verði við fjármögnun kaupenda annarrar blokkarinnar um miðjan janúarmánuð. Aðeins lengra er í að hin seljist. Sigurður segir að sjóðurinn sé nú þegar með 75 íbúðir í útleigu og aðrar í sölu í Árborg.