Þann 23. maí, daginn eftir að Jón Ásgeir sendi fyrirmæli um afgreiðslu mála tengdum honum og Pálma Haraldssyni „the Bonus way“ sendi Einar Örn Ólafsson, sem hafði fengið afrit af póstum Jóns Ásgeirs, svarpóst til Lárusar Welding.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnu skilanefndar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri, Pálma Haraldssyni, Lárusi og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis þar sem þeir eru sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008. Viðskiptablaðið mun fram eftir degi í dag birta valda kafla úr stefnunni.

Hinn góði eigandi setur forstjórann í erfiða stöðu

Til upprifjunar þá var meginmál þess pósts sem Jón Ásgeir hafði sent á Lárus eftirfarandi:

„Þetta eru málin nenni ekki að bögga ykkur á hverjum degi með þessu enda ætlast ég til að CEO þessara félaga vinni sín mál ef við komum þessum málum frá þá er borðið mitt hreint. Annars er kannski best að ég verði starfandi stjórnarformaður GLB.“

Í svarpósti Einars Arnar segir:

„mér finnst hinn góði eigandi okkar aðeins setja þig í erfiða stöðu með þessum mail. Goldsmith er t.d. virði 1,5 en ekki 4,0 o.s.frv. En ég geri allt sem þú segir mér að gera. kv. Einar“.

Glitnir látinn ráðstafa fjármunum í þágu Jóns Ásgeirs og félaga

Í stefnunni segir að bersýnilegt sé af þessum tölvupóstsamskiptum að „stefni Jón Ásgeir var álitinn „eigandi“ bankans af yfirmönnum hans og að hann gaf forstjóra bankans bein fyrirmæli um að ráðstafa fjárhagslegum hagsmunum bankans í sína þágu og félaga í fjárhagslegum tengslum við hann, bæði með lánveitingum og svo kaupum bankans á verðbréfum“. Ótvírætt sé að Lárus hafi farið eftir þeim fyrirmælum sem Jón Ásgeir lagði fyrir hann.

Sjónarspil til að hækka virði Aurum á pappírunum

Þá segir einnig að Jóni Ásgeiri, Pálma og Lárusi hafi verið „fullkunnugt um að hlutabréfin í Aurum væru fremur nálægt 1,5 milljarði króna að verðmæti en 4 milljörðum króna en síðark oma á daginn að verðlaging hlutabréfanna í Aurum í viðskiptum Fons hf. og dótturfélagsins FS38 ehf. var sjónarspil stefndu og studdist ekki við neinar viðskiptalegar forsendur sem samrýmdust reglum bankans. Ríflega mánuði síðar var verðmæti þeirra hins vegar tilgreint sem 6 milljarðar króna“.