Í stefnu skilanefndar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis þar sem þeir eru sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008 er farið um víðan völl. Viðskiptablaðið mun fram eftir degi í dag birta valda kafla úr stefnunni.

Í henni er því meðal annars lýst hvernig að Jón Ásgeir, Lárus og Gunnar Sigurðsson, þáverandi forstjóri Baugs, hefðu fundað um möguleg kaup Glitnis á 22,8% hlut Fons, félags Pálma Haraldssonar, í Aurum, sem átti meðal annars skartgripakeðjuna Goldsmiths. Glitnir átti þá að kaupa hlut Pálma á sex milljarða króna, en í bókhaldi Fons var umræddur hlutur metinn á 1,4 milljarða króna nokkrum mánuðum áður. Snúningurinn átti auk þess að tryggja Pálma 2,2 milljarða króna í „cash“.

Funduðu 5. maí 2008

Þann 5. maí 2008 funduðu þeir Jón Ásgeir Jóhanesson, Lárus Welding og Gunnar Sigurðsson, þáverandi forstjóri Baugs, um möguleg kaup Glitnis á 22,8% hlut Pálma Haraldssonar í Aurum, sem átti meðal annars skartgripakeðjuna Goldsmiths. Eftir fundinn sendir Gunnar Jóni Ásgeiri og Lárusi tölvupóst þar sem hann leggur til við Lárus að Glitnir kaupi hlutabréf Pálma í Aurum á sex milljarða króna og að andvirðið yrði að hluta til nýtt í „tryggingagöt PH upp á 3.0 ma.kr.“

Fons, eignarhaldsfélag Pálma, hafði upphaflega greitt 2,5 milljarða króna fyrir hlut sinn í Aurum í febrúar 2007 og greiddi 330 milljónir króna í desember 2008. Heildargreiðslur Fons vegna eignarhlutarins í Aurum sem þeir Gunnar og Jón Ásgeir vildu að Glitnir keypti af Fons á sex milljarða króna námu því tæpum helmingi þess ætlaða kaupverðs.

Í bókhaldi Fons, sem varð aðgengilegt eftir gjaldþrot félagsins var verðmæti Fons í Aurum sagt mun lægra en hið ætlaða kaupverð. Í stefnunni segir að það hafi verið fært í bókhald Fons sem „ríflega 1,4 milljarða króna miðað við 1. janúar 2008 [...] þessi sömu hlutabréf urðu síðar, í júlí 2008, andlag kaupsamnings milli Fons hf. og dótturfélagsins og FS38 ehf., þar sem kaupverð þeirra var 6 milljarðar króna og kaupin fjármögnuð af bankanum.“

Í tölvupóstunum sem stefnan byggir á er fullyrt að félag sem kallast Damas mundi fjárfesta 15 milljónir punda í Aurum sem nota ætti í frekari uppbyggingu félagsins. Þessi fjárfesting útskýri hið aukna virði að einhverju leyti. Í stefnunni segir að „ekki er vitað um deili á þessu fyrirtæki en viljayfirlýsingin leiddi ekki til samninga um hlutabréfakaup í Aurum.“

Pálmi átti að fá 2,2 milljarða króna í „cash“

Hin svokölluðu tryggingagöt Pálma upp á þrjá milljarða króna, sem Gunnar minntist á í tölvupósti sínum þann 5. maí 2008, voru í raun ónógar tryggingar vegna framvirkra samninga Fons og bankans um hlutafé. Í tölvupóstinum er einnig tiltekið að kaupverðið sem Glitnir átti að greiða Pálma ætti að öðru leyti að notast til að greiða upp „aðrar skuldbindingar PH upp á kr. 0,8 ma kr.“ auk þess sem PH [skyldi fá] 2.2. ma. kr. í cash“ samkvæmt tillögunni.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að rannsakendur telji tilgang þeirra manna sem komu að tillögunni hefði í grunninn verið þann að búa til laust fé handa Pálma Haraldssyni. Í stefnu skilanefndar Glitnis segir þó einnig að „eins og tölvupósturinn ber með sér gengu Gunnar og stefndi Jón Ásgeir erinda stefnda Pálma en þó hafði stefni Jón Ásgeir hagsmuni af ráðstöfuninni þar sem bankinn átti veð í kröfu Fons hf. á hendur Baugi Group hf. til tryggingar tilteknu láni, að fjárhæð 2,5 milljarðar króna auk þess, eins og síðar kom í ljós, að til stóð að stefni Jón Ásgeir fengi milljarð króna af láninu í sinn hlut.“