*

sunnudagur, 5. desember 2021
Erlent 9. júlí 2020 08:00

Stefna á stærsta frumútboð síðan Uber

Sprotafyrirtækið Palantir hyggur á skráningu á markað eftir 17 ára starfsemi. Félagið er metið á 20 milljarða dala.

Ritstjórn
Alexander Karp stofnandi og forstjóri Palantir.

Bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Palantir Technologies hefur lagt inn umsókn til Bandaríska verðbréfaeftirlitsins (SEC) um að fá hlutabréf sín skráð á markað. New York Times greinir frá.

Umrædd skráning hefur legið í loftinu í um fimm ár en nú virðist vera sem skráningin verði loks að veruleika. Félagið var stofnað árið 2003 í Kísildalnum og er eitt elsta sprotafélag frá þeim slóðum sem enn er í einkaeigu.

Palantir er um þessar mundir metið á 20 milljarða dala, sem gerir það stærsta sprotafyrirtæki til að stefna á frumútboð (IPO) síðan Uber fór á markað í fyrra.

Starfsemi félagsins fólst til að byrja með aðallega í greiningu og vinnslu gagna fyrir ríkisstjórnir, löggæslu og hernaðariðnað. Í dag hefur það þó fært út kvíarnar og starfsemin er orðin fjölbreyttari.

Stóran hluta tregðu félagsins til þessa við að skrá sig á markað má rekja til eðli starfseminnar. Upplýsingaskylda skráðra félaga er mun ríkari, og meðal upplýsinga sem gætu orðið opinberar eru störf félagsins fyrir ríkisstofnanir.

Stikkorð: Palantir