Bandarísk miðlunarfyrirtæki, sem bjóða almennum fjárfestum að fjárfesta á hlutabréfamörkuðum í gegnum netið standa nú í hálfgerðu verðstríði.

Fyrirtækið Charles Schwab, sem lækkaði gjöldin sín úr 8,95 dölum á viðskipti, niður í 6,95 dali á viðskipti fyrir fjórum vikum, hefur enn og aftur lækkað verðin sín.

Nú þurfa viðskiptavinir aðeins að greiða 4,95 dali, ef þeir hyggjast fjárfesta í hlutabréfum eða kauphallarsjóðum.

Líklegt er að verðlækkunin komi til vegna lækkana hjá samkeppnisaðilanum Fidelity, en þar greiða fjárfestar nú 3 til 4,95 dali fyrir kaup eða sölu.

Aðrir samkeppnisaðilar, til að mynda TD Ameritrade og E*Trade rukka þó enn 9,99 dali fyrir hver viðskipti. Ný fyrirtæki á borð við Robinhood rukka þó ekkert fyrir kaup og sölu.

Alls nota um 10 milljónir lausnir Schwab. Líklega munu fleiri ráðast í verðlækkanir á næstunni.