Gert er ráð fyrir yfirfærslu á innlánum Straums-Burðarás Fjárfestingabanka til Íslandsbanka verði lokið 3. apríl næstkomandi. Í framhaldi þess er samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gert ráð fyrir að erlendir kröfuhafar bankans taki yfir starfsemi hans. Um leið er hugsanlegt að hann verði endurreistur í einhverri mynd síðar.

Á það verður að horfa að Fjármálaeftirlitið (FME) tók ekki yfir eignarhald bankans þegar honum var lokað fyrir tæplega hálfum mánuði en nýtti sér þess í stað heimild í lögum sem gerði þeim kleyft að taka tímabundið yfir stjórn bankans. Erlendu kröfuhafarnir hafa stofnað með sér sex manna nefnd sem fundaði með starfsmönnum Straums í gær. Er gert ráð fyrir að funda aftur að viku liðinni.

Áður en kemur að yfirtöku á bankanum þarf að liggja fyrir hve mikið rekstrarfé bankinn þarf til að geta haldið uppi lágmarksstarfssemi við núverandi kringumstæður. Eins og áður hefur komið fram þá eiga íslensku lífeyrissjóðirnir ríflega helming þeirra innstæðna sem eru í Straumi. Ríkissjóður hyggst samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ekki standa bak við þær þannig að þau innlán yrðu áfram í bankanum. Því er talið að það séu um 200 milljónir evra sem fluttar verða yfir til Íslandsbanka sem innstæður. Til að tryggja greiðslu fyrir því mun Straumur gefa út þriggja ára skuldabréf en á móti mun ríkissjóður taka tryggingu í öllum eignum Straums.

Við yfirtöku FME var krafa innstæðueigenda tekin fram yfir laun starfsmanna og óvissa skapaðist með rekstrarfé fyrir áframhaldandi starfsemi. Óvissa sem það skapaði leiddi til þess að ákveðið var að fresta yfirfærslu innstæðna til 3. apríl, meðal annars vegna þess að ljóst var að eitt skuldabréf dygði ekki fyrir tryggingum þar sem innstæður voru vistaðar í mismunandi myntum. Því þarf að gefa út mörg skuldabréf þegar greiðslan verður gerð upp.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins áttuðu erlendu kröfuhafarnir sig á því fljótlega að til þessa að bankinn gæti haldið við lánum og þeim rekstri sem hann stendur fyrir yrðu þeir að leggja bankanum til rekstrarfé innan skamms. Það er það sem þeir eru að láta yfirfara núna. Um leið er verið að skoða fýsileika þess að endurreisa bankann og halda áfram rekstri hans þó það yrði í mjög smækkaðri mynd, þá sem fjárfestingabanki. Þannig sæju menn fram á að geta nýtt sér þau tækifæri sem hér sköpuðust til endurreisnar hér á landi.

Hjá Straumi-Burðarás Fjárfestingabanka voru 300 starfsmenn en þegar er búið að segja upp helmingi þeirra. Gert er ráð fyrir að helmingur þeirra sem enn eru hjá bankanum hætti í apríl. Með vorinu er þá gert ráð fyrir að um 30 starfsmenn verði hjá bankanum nema annað verði ákveðið.  Aðrar eignir samstæðunnar eru enn í rekstri.