Bandaríski seðlabankinn íhugar nú að hækka stýrivexti „fyrr eða hraðar“ en áður hafði verið áformað, að því er fram kemur í nýbirtri fundargerð frá síðasta fundi peningastefnunefndar bankans, sem hittist í síðasta mánuði.

Nefndin er í frétt Financial Times einnig sögð hlynnt áformum um að draga hraðar úr skuldabréfakaupum bankans, svokallaðri magnbundinni íhlutun, sem bankinn hefur stundað af krafti síðan heimsfaraldurinn hófst.

Sú afstaða nefndarinnar sem fram kemur í fundargerðinni er sögð til marks um aukna aðhaldssemi í stjórn peningamála.

Markaðir brugðust nokkuð ókvæða við fréttunum í gær. Ein helsta hlutabréfavísitala Bandaríkjanna, S&P500, féll um 2%, á meðan Nasdaq Composite-vísitalan féll 3,3%. Ríkisskuldabréf féllu einnig í verði, og tveggja ára ríkisskuldabréf náðu sinni hæstu ávöxtunarkröfu síðan í mars 2020 þegar faraldurinn barst fyrst til Bandaríkjanna: 0,82%.

Verðbólga vestanhafs hefur verið þrálát og vaxið ört síðustu misseri, og hefur ekki mælst hærri í 40 ár eftir að hún náði 6,8% í síðasta mánuði. Peningamálayfirvöld kenndu kostnaðarhækkunum vegna röskunar aðfangakeðja í tengslum við faraldurinn framan af um aukna verðbólgu, og sögðu hana tímabundna, en Jerome Powell seðlabankastjóri sagði við þingið í lok nóvember síðastliðins að líklega væri kominn tími til að hætta að nota það orðalag.