Samningafundum Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), Stéttarfélags í almannaþágu (SFR) og Samtaka atvinnulífsins (SA) og fleiri fyrir hönd Isavia var slitið á sjöunda tímanum í morgun. Enginn árangur náðist á fundinum og mun að óbreyttu skella á allsherjarverkfall rúmlega 400 flugvallarstarfsmanna hjá Isavia klukkan fjögur næstu nótt. Isavia rekur flugvelli landsins. Verkfall getur haft áhrif á tugi flugferða í millilandaflugi auk þess sem innanlandsflug fellur niður.

Ekki hefur verið boðað til annars fundar í deilu FFR og Isavia.

Á fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is , segir að samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Jóhannssyni, formanni FFR, náðu viðsemjendur ekki saman á grunni þeirra tillagna sem fyrir lágu. Hann eigi hann von á því að ríkissáttasemjari hafi samband við samninganefndirnar í dag og boði til fundar í dag.

Á vef mbl.is segir jafnframt að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra muni gera grein fyrir stöðunni vegna yfirvofandi verkfalls á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi í dag. Ekki hafi hins vegar fengist upplýsingar um það hvort mögulega verði sett lög á verkfallið.