Íslensk fyrirtæki ætla sér stóra hluti í Þýskalandi á næstu árum en fyrsta stóra verkefnið við bæinn Mauerstetten er komið vel af stað og lofar góðu um framhaldið.

Íslenska orkuútrásarfyrirtækið Exorka kynnti síðastliðinn laugardag starfsemi sína á borunarstað félagsins í bænum Mauerstetten í suðurhluta Þýskalands, um það bil 100 km suðvestur af Munchen. Þar er nú staðsettur nýjasti risabor borunarfyrirtækisins Heklu og er þess vænst að hann verði kominn niður á ríflega 4.000 metra dýpi í júní næstkomandi. Þar telja menn sig nokkuð vissa um að finna nægilegt vatn til að knýja orkuver af Kalina-gerð og framleiða um 5 MW af orku.

Það virðist við fyrstu sýn ekki vera mikið en þegar horft er til niðurgreiðslustefnu þýskra stjórnvalda gagnvart umhverfisvænni orku þá liggur nærri að verðmæti orkunnar sé það sama og ef um 20 MW væri að ræða. Allt bendir til þess að þessi niðurgreiðsla fari vaxandi í framtíðinni sem gæti aukið enn á verðmæti jarðvarmaorku í Þýskalandi.

Það eru íslenskir aðilar sem standa fyrir verkefninu en Geysir Green Energy er stærsti eigandi Exorku með 66% hlut og er Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis, stjórnarformaður félagsins. Auk þess koma þýskir, kanadískir og ástralskir fjárfestar að félaginu.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .