Stefnt er að skráningu Promens innan 18 mánaða. Að sögn Magnúsar Jónssonar, forstjóra Atorku Group, móðurfélags Promens, er það stefna félagsins að skrá Promens og leita þannig útgöngu fyrir fjárfestingu Atorku. Á þessum tíma er gert ráð fyrir að tvö- til þrefalda veltu félagsins með uppkaupum á erlendum mörkuðum. "Stefnan er tekin á skráningu en auðvitað getur það breyst á tímabilinu ef aðstæður breytast," sagði Magnús. Hann sagði að við skráningu væri ekki eingöngu horft til Íslands, aðrir markaðir kæmu fyllilega til greina. Magnús benti á að aðrir valkostir gætu falist í öfugri yfirtöku til að fá skráningu en einnig gæti komið til greina að selja félagið til samkeppnisaðila ef það væri talið henta.

Um aðferðafræði skráningar sagði Magnús að vel komi til greina að deila bréfum út til núverandi hluthafa Atorku. Sömuleiðis getur komið til greina að Atorka haldi áfram að fylgja félaginu eftir sem kjölfestufjárfestir.

Á fundum með forráðamönnum Promens hefur komið fram að umtalsverð tækifæri eru til að stækka félagið og hafa verið nefnd til suðurríki Bandaríkjanna, Kalifornía og Flórída þar sem mikill uppgangur er í hverfissteypu. Fyrir skömmu var gengið frá kaupum á bandaríska félaginu Elkhart Plastics Inc. og er félagið nú leiðandi í hverfissteypu á heimsvísu. Velta félagsins í ár er áætluð um 16 milljarðar króna.

Magnús sagði að aðkoma Atorku að Promens væri lýsandi fyrir aðferðarfræði félagsins. "Þarna erum við að horfa á markað sem er mjög dreifður og býður upp á mikla möguleika. Um leið horfum við til þess að byggja upp öflugt stjórnendateymi sem leiðir félagið áfram um leið og innri vöxtur er góður. Markaðurinn er að fara úr stáli yfir í plast sem gefur vísbendingu um það sem koma skal. Við erum bjartsýnir á uppgang félagsins."