Stofnfundur fjarskipta- og upplýsingatæknifélagsins Teymis hf. var haldinn í morgun. Stefnt er að skráningu félagsins í Kauphöll Íslands, segir í tilkynningu.

Innan samstæðu félagsins verða eftirtalin fyrirtæki: Vodafone, Kögun, Skýrr, Securitas og EJS. Auk þess rekur Teymi fyrirtæki á borð við P/F Kall, Mömmu, BTnet og lággjaldasímafélagið SKO.

Árni Pétur Jónsson forstjóri Teymis segir fyrirtæki innan samstæðunnar búa yfir miklum vaxtartækifærum og því séu spennandi tímar framundan.

Hann segir að markmiðið með stofnun Teymis sé að leiða vöxt og framþróun fyrirtækja í samstæðunni. ?Við ætlum að byggja á skipulagi sem styður framtíðarvöxt fyrirtækjanna en þau eru öll með sterka markaðs- og rekstrarstöðu.?

Í fjarskiptahluta Teymis verða fyrirtækin Vodafone á Íslandi, SKO, P/F Kall í Færeyjum og Mamma. Í öryggishlutanum verður Securitas og í upplýsingatæknihlutanum verða Kögun, Skýrr og EJS. Stjórn Teymis var kosin á stofnfundi félagsins í morgun. Í stjórn félagsins eru: Þórdís J. Sigurðardóttir, stjórnarformaður, Þorsteinn M. Jónsson, Guðmundur Ólason, Matthías Imsland og Þór Sigfússon.

?Við viljum að Teymi verði skýr valkostur fyrir fjárfesta. Við ætlum að hámarka rekstur hvers fyrirtækis fyrir sig. Við munum því leita leiða til að auka sérhæfingu fyrirtækjanna og finna nýja tekjumöguleika, m.a. í samstarfi þeirra á milli. Áhersla okkar er á aukna sjálfvirkni og aðhald í rekstri,? segir Árni Pétur.

Í tilkynningunni segir hann að Teymi muni byggja á einfaldri og skilvirk stjórnun, skjótri ákvarðanatöku og hagkvæmri uppsetningu.

?Stíll okkar byggir á frumkvæði, dugnaði og óformlegum samskiptum. Við erum með samstíga og metnaðarfulla stjórnendur sem ásamt starfsfólki okkar hafa sett sér það markmið að Teymi verði stærsta félag á sínu sviði á Íslandi,? segir Árni Pétur.