Hópur lífeyrissjóða og annarra innlendra fjárfesta hafa fengið í hendur 60% hlut sinn í Tryggingamiðstöðinni (TM) sem þeir keyptu í sumar. Það voru Stoðir, sem seldu hlutinn fyrir 6,7 milljarða króna. Það svarar til þess að virði TM hafi numið 11,2 milljörðum króna. Fram kemur í tilkynningu að skilyrði kaupsamningsins hafi verið uppfyllt og fjárfestahópurinn greitt fyrir hlutinn með staðgreiðslu.

Stoðir ætla að eiga áfram 40% hlut í TM. Stefnt er að skráninug tryggingafélagsins í Kauphöllina á fyrri hluta næsta árs og munu Stoðir þá selja hlutinn að öllu leyti eða hluta í almennu hlutafjárútboði.

Eignir upp á 4,6 milljarða færðar úr félaginu

Meðal skilyrða í kaupsamningnum var samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins og að tilteknar verðbréfaeignir að bókfærðu verðmæti 4,6 milljarðar króna yrðu færðar út úr félaginu til móðurfélagsins gegn lækkun hlutafjár Stoða. Við það lækkaði eigið fé TM miðað við efnahag í lok júní 2012 í 8,4 milljarða króna. Eftir lækkunina er eiginfjárhlutfall TM um 29%.

Kaupendur eru meðal annars Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Stafir lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Festa lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn, Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Vestfirðinga, fjárfestar á vegum VÍB – Eignastýringar Íslandsbanka, Virðingar og Auðar Capital auk Sjóðs 10 á vegum Íslandssjóða, Úrvalsbréfa á vegum Landsbréfa og sjóðs á vegum Júpíters rekstrarfélags.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi Stoða í söluferli TM sem hófst í lok mars. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og Fyrirtækjaráðgjöf Virðingar voru ráðgjafar kaupenda, að því er fram kemur í tilkynningu.