Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að þegar hann hafi komið að stjórn Orkuveitunnar um mitt ár 2010 hafi komið sér mest á óvart að það fyrirtækið væri eins og bóla þar sem hrunið hafði ekki alveg komið í heimsókn.

„Þarna var fínt fólk saman komið en það var einhver kerfislægur vandi hjá þessu fyrirtæki. Það má draga upp ýmiss konar myndir af þessu samspili einkarekstrar og stjórnmála. Þar sem ekki er alveg ljóst hver ber ábyrgð á hverju og hvernig framvinda hlutanna er eða á að vera. Þannig að úr verður þessi kokteill sem var andlega strandaður,“ segir Haraldur sem telur reynsluna af því að fara inn í fyrirtæki og skoða möguleikana í stöðunni hafa komið sér vel.

„Maður áttaði sig á því að það þurfti að banka hraustlega í borðið til að fá eitthvað til að gerast. Við völdum að fara ansi bratt á stjórnendur með það að krefja þá um greinargerð um stöðuna og þeirra framtíðarlausnir. Þetta var um hásumar og allir kallaðir heim úr sumarfríi. Þarna var unnið gott starf en þáverandi stjórnendur og starfslið höfðu kannski engar forsendur til að gera einhverjar mjög brattar áætlanir í ljósi hefðbundinna samskipta við eigendur. Þau gerðu sitt besta og skiluðu áætlunum og á þeim grunni var hægt að stökkva áfram. Til að mynda var það mat okkar að taka þyrfti erfiðar ákvarðanir eins og t.d. þegar ákveðið er að segja Hjörleifi Kvaran upp,“ segir Haraldur sem ber honum þó vel söguna.

Aðstaðan hafi aftur á móti verið sú að það hafi verið ófært að halda áfram með sama fólk við stjórn mála. „Það varð að skipta um forystu þarna. Hann er fórnarlamb þess að vera á toppnum þegar þetta gerist allt saman,“ segir Haraldur sem segir stöðu fyrirtækisins hafa verið erfiða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .