„Ég segi já [...] vegna þess að það verður ekki undan því komist að leysa þetta mál," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, við atkvæðagreiðsluna á Alþingi í dag um Icesave-ríkisábyrgðina.

Frumvarpið var samþykkt með 34 atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna gegn 14 atkvæðum Framsóknar, tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokks, tveggja þingmanna Borgarahreyfingarinnar og Þráins Bertelssonar, þingmanns utan flokka.

Flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá, þar á meðal Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Þá sat einn þingmaður Borgarahreyfingarinnar, Þór Saari, hjá. Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er í fríi og var því ekki viðstaddur atkvæðagreiðsluna.

„Eitt allsherjar rugl"

Bjarni Benediktsson sagði í atkvæðagreiðslunni að frumvarpið, eins og það liti út, ætti ekkert skylt við það frumvarp sem ríkisstjórnin hefði teflt fram í byrjun sumars. Þingið hefði lagað það að þeim kröfum og breytingum sem komið hefðu fram á þinginu. Sjálfstæðismenn hefðu átt stóran þátt í því.

„Það breytir því ekki að ríkisábyrgðin sem verið er að greiða atkvæði um er nátengd samningunum sem ríkisstjórnin skrifaði uppá," sagði Bjarni. „Og hún með  því að láta undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna okkar með samskiptum við önnur stjórnvöld hefur komið málinu í þennan ómögulega farveg. Ég hyggst ekki greiða atkvæði gegn frumvarpinu [...] heldur sit ég hjá og lýsi þannig ábyrgðinni á málinu í heild sinni á hendur ríkisstjórninni."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að enn væri óljóst hvað yrði ofan á: samningarnir eða fyrirvarar Alþingis við þá. Algjör óvissa ríkti um það og „þetta er orðið eitt allsherjar rugl," sagði hann. „Og þar sem þessi óvissa ríkir," bætti hann við, "er óásættanlegt að þingið samþykki þetta mál og samþykki. Ég segi nei, nei, nei!"

Þóri Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sagði að umrætt mál hefði komið handónýtt frá framkvæmdavaldinu. Alþingi hefði hins vegar tekið völdin og gert margar mikilvægar breytingartillögur sem hann styddi. „Hér er hins vegar líka verið að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning í landinu, skuldum sem stofnað var til í siðspilltu og óréttlátu viðskiptaumhverfi sem stofnað var til [...] í siðspilltu stjórnmálaumhverfi. Því get ég ekki greitt þessari ábyrgð atkvæði mitt."

Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokks sem greiddu atkvæði á móti frumvarpinu eru Birgir Ármannsson og Árni Johnsen og þá greiddu atkvæði gegn frumvarpinu þær Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir, Borgarahreyfingu, auk alls þingflokks framsóknarmanna, líkt og áður sagði.

Sautján þingmenn gerðu grein fyrir atkvæðum sínum við lokaatkvæðagreiðsluna. Í þeim hópi var ekki Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar.