Steinunn Stefánsdóttir er hætt sem aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, en hún hefur starfað hjá blaðinu frá stofnun þess. Steinunn segir í samtali við vb.is að hún hafi tekið ákvörðun um að hætta í gær, þriðjudag. Í dag var því síðasti vinnudagur Steinunnar hjá Fréttablaðinu, þar sem hún hefur starfað undanfarin tólf ár.

Hún sendi starfsmönnum blaðsins tölvupóst í dag þar sem hún greindi frá þessari ákvörðun sinni, en í gær var Mikael Torfason ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins og mun hann starfa sem slíkur við hlið Ólafs Stephensen.

Í tölvupóstinu segir hún að í ljósi breyttra aðstæðna hafi orðið samkomulag milli hennar og forstjórans um að hún hætti störfum á blaðinu. Hún kveður samstarfsfólkið með trega, en segist einnig glöð yfir því að hafa fengið að vinna með og vera samferða svo góðu fólki.