Stjórnendur Sterling hafa ákveðið að grípa til mikilla niðurskurðaraðgerða, bæði með lokun flugstarfsstöðva, niðurskurðar í sætaframboði og verulegri fækkun starfsfólks, sem til samans eiga að lækka árlegan rekstrarkostnað félagsins um meira en 100 milljónir danskra króna, eða 1,7 milljarða íslenskra króna.

Hækkandi eldsneytisverð og minnkandi eftirspurn hefur komið hart niður á rekstri Sterling, sem er í eigu íslenska félagsins Northern Travel Holding, sem aftur er í eigu Fons og FL Group.

Í frétt Børsen segir að Sterling muni senda fimmta hvern starfsmann „út í myrkrið“.

Rulle Grabow Westergaard, yfirmaður samskiptasviðs Sterling, segir túlkun Børsen ekki vera rétta, alls ekki standi til að segja upp 20% starfsmanna. Stefnt sé að því að fækka starfsmönnum um 15-17% og ekki muni koma til beinna uppsagna heldur verði þessu náð fram með því að starfsmenn fari sjálfviljugir á eftirlaun, með starfslokasamningum, með því að fleiri starfsmenn verði í hlutavinnu o.s.frv.

„Við höfum átt mjög gott samstarf við stéttarfélög flugfreyja og flugmanna vegna þessara aðgerða og getum náð fram þessari fækkun án þess að grípa til beinna uppsagna þótt ég vilji ekki ganga svo langt að fullyrða að alls engum verði sagt upp,“ segir Westergaard og bendir á að stettarfélög flugmanna og flugfreyja styðji sparnaðaraðgerðir stjórnar Sterling enda sé öllum ljóst að ekki var komist hjá því að grípa til niðurskurðar til þess að koma rekstrinum á réttan kjöl.