Fjölmörg stór mál eru óafgreidd og má til dæmis nefna rammaáætlun, veiðigjöld, kvótasetningu makríls, tvö húsnæðismál, bónusgreiðslur til bankafólks, sölu á eignarhlut ríkisins í bönkum, fjölgun dómara við Hæstarétt og nýtt frumvarp um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Þá hefur frumvarp um losun hafta ekki enn verið lagt fram. Ljóst er að þingið þarf að starfa langt fram í júní og hugsanlega út mánuðinn eigi að afgreiða stóru málin.

Eins og staðan er núna þá hafa 47 lög verið samþykkt á yfirstandi þingi en 151 frumvarp bíður afgreiðslu. Fjórar þingsályktunartillögur hafa verið samþykktar en 106 bíða afgreiðslu þingsins. Þetta þýðir að samtals eru 257 mál óafgreidd.  Af þeim 47 frumvörpum sem hafa verið samþykkt eru 42 stjórnarfrumvörp. Af þingsályktunartillögunum fjórum eru þrjár stjórnartillögur.

Bónusgreiðslur

Eitt lagafrumvarpanna sem bíður er frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um fjármálafyrirtæki. Málið er enn í nefnd. Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar á lögunum svo sem breytingar á hlutfalli kaupauka eða bónusgreiðslna til starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samkvæmt núgildandi lögum mega kaupaukagreiðslur nema 25% af föstum árslaunum viðkomandi starfsmanns.

Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins vegna málsins kemur fram að það telji skaðlaust að hækka þetta hlutfall upp í 50% og jafnvel setja sérreglur um smærri fjármálafyrirtæki þar sem þeim yrði leyft að greiða 100% föstum árslaunum til starfsmanna í formi kaupauka. Hækkun bónusgreiðslna hefur meðal annars mætt andstöðu í hinum stjórnarflokknum og hefur Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, talað mjög á móti þessum fyrirætlunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .