„Ef stjórnin lítur svo á að mikilvægt sé að „vinna traust“ og „vinna náið með“ aðilum á markaði, þá fylgja því áhættur. Þetta á stjórnin að vita. Ef hún aðhyllist þessa nálgun við eftirlit vegna þess að hún veit ekki betur, þá er það barnaskapur. Það er aðfinnsluvert. Ef stjórnin hins vegar aðhyllist þessa nálgun vitandi um áhættuna, þá er það glannaskapur. Það er ámælisvert.“

Þetta er meðal þess sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar gagnrýnir Sigurbjörg stjórn Fjármálaeftirlitsins harðlega. Hún segir aðila á markaði reyna með ýmsum ráðum að draga úr áhrifum eftirlitsins. Máli sínu til stuðnings nefnir Sigurbjörg að starfsfólki FME séu boðin hærri laun á markaði í því skyni að veikja getu eftirlitsins til að sinna skyldum sínum. Þá séu mynduð náin samstarfstengsl við starfsmenn og yfirmenn eftirlitsins og jafnvel grafið undan trúverðugleika eftirlitsins með því að gera aðför að trúverðugleika yfirmannsins.

Sigurbjörg segir jafnframt að stjórnvöld allra tíma í sögu lýðveldisins hafi brugðist almenningi með því að koma sér hjá því að koma á skipulögðu ráðningar- og frammistöðumatskerfi fyrir æðstu embættismenn og forstöðumenn ríkisins.

„Stjórnin getur ráðið og rekið forstjóra án þess að lýðræðislega kjörinn fulltrúi almennings, ráðherran, komi þar nærri. Stjórnin er ígíldi ráðherravalds, en ber enga pólitíska ábyrgð gagnvart almenningi og getur því farið sínu fram.“

Grein Sigurbjargar í heild sinni má lesa hér.