Stjórn Icelandair Group leggur til við aðalfund félagsins 13. mars næstkomandi að breytingar verði gerðar á samþykktum félagsins um kynjahlutföll í stjórn og varastjórn. Í tillögunni sem birt var í dag segir m.a. að þær tvær konur og þeir tveir karlar sem flest atkvæði fái í stjórnarkjöri skuli teljast réttkjörin og einnig sá er næstur þeim kemur að atkvæðamagni.

Þá er sömuleiðis lagt til að sá sé réttkjörinn varamaður sem fær flest atkvæði í kjöri af þeim sem eru af því kyni sem fámennara er í aðalstjórn.

Eftir því sem næst verður komist er Icelandair Group fyrsta skráða félagið þar sem stjórn þess leggur til breytingar á kynjahlutföllum í stjórn og varastjórn.