Sir Richard Broadbent, stjórnarformaður verslanakeðjunnar Tesco, sagði af sér í morgun eftir að rannsóknarnefnd greindi frá því að alvarleg mistök hefðu verið gerð við bókhald fyrirtækisins. Voru hagnaðaráætlanir fyrirtækisins þannig stórlega ýktar. BBC News greinir frá málinu.

Tesco hefur nú gefið út að afkoma fyrirtækisins hafi verið ofmetin um 263 milljónir punda, en það jafngildir um 51 milljarði íslenskra króna. Þá hefur fyrirtækið einnig gefið út að söluhagnaður á fyrri helmingi ársins hafi dregist verulega saman. Nam hagnaður fyrirtækisins um sex milljónum punda á fyrri helmingi ársins, samanborið við 820 milljónir punda á sama tímabili í fyrra.

Undanfarna tólf mánuði hefur gengi hlutabréfa Tesco fallið um meira en 50%. Í lok septembermánaðar féll gengið um heil 17% þegar fregnir bárust af því að nýr forstjóri hefði hafið rannsókn á bókhaldsmálum fyrirtækisins.

Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warrens Buffett, hefur að undanförnu selt hluti sína í fyrirtækinu. Í byrjun mánaðarins sagði Buffett að kaupin í Tesco hefðu verið stór mistök af sinni hálfu. Í lok árs 2013 átti fyrirtæki hans um 3,7% hlut í verslanakeðjunni, en sala hlutanna að undanförnu hefur fært eignarhlutinn niður fyrir 3%.