James Cayne, stjórnarformaður Bear Stearns, sagðist á fundi hluthafa og starfsmanna í dag iðrast hvernig fór fyrir bankanum. Í dag var endanlega staðfest á að Bear Stearns yrði seldur til fjárfestingabankans JPMorgan fyrir minna en 10 dollara á hlut. Um 84% hluthafa samþykktu samrunann. Gengi bréfa Bear Stearns þegar best lét var 173 dollarar á hlut, en Reuters segir frá þessu í dag.

Cayne sagði að fellibylur á fjármálamörkuðum hafi orsakað fall Bear Stearns, sem var einn af fimm stærstu fjárfestingabönkum Bandaríkjanna. Á fundinum, sem var lokaður fjölmiðlum, voru um 400 hluthafar mættir. „Ég biðst persónulega afsökunar,” sagði Cayne. „Orð fá ekki lýst tilfinningum mínum.” Cayne þótti koma á óvart með þessum ummælum sínum þar sem hann hefur ekki verið þekktur fyrir auðmjúka framkomu fram að þessu.

Alan Schwarz, forstjóri Bear Stearns, sagði á fundinum samruninn ætti sér stað á sorgardegi. Fregnir herma að hvorki Schwarz né Cayne hafi verið spurðir nokkurra spurninga af viðstöddum. Búist er við að Schwarz muni starfa á fyrirtækjasviði JPMorgan eftir að bankarnir hafa sameinast endanlega. 55% þeirra 14.000 starfsmanna sem Bear Stearns hafði á sínum snærum hefur verið sagt upp á síðustu vikum.

Á meðan hrun Bear Stearns var hvað mest áberandi í fjölmiðlum var Cayne sakaður um að fara snemma heim úr vinnunni til að spila golf eða taka þátt í brigde-mótum. Jafnframt heyrðust orðrómar um að Cayne hefði neytt kannabisefna á ögurstundu í miðjum erfiðleikum bankans. Cayne sagði þeim sem sóttu fundinn fyrr í dag að um ósannindi væri að ræða.

Gengi bréfa JPMorgan hækkaði um 2% í dag.