Stjórnarformaður Royal Bank of Scotland (RBS), Sir Tom McKillop, hefur beðið hluthafa innilegrar afsökunar á fjárhagsvandræðum bankans. 99% hluthafar greiddu þeirri tillögu að samþykkja 20 milljarða punda björgunarpakka stjórnvalda fyrir bankann atkvæði.

Fyrr í þessum mánuði tilkynnti RBS að bankinn sæi fram á að kynna ársuppgjör sem skilar tapi í fyrsta sinn í tæplega 300 ára sögu bankans.

Tom McKillop sagði hluthöfum á fundi þeirra að honum þætti afar leiðinlegt að vita af þeim skaða sem vandi bankans hefur valdið. Hann sagði fjármálakreppuna nú vera erfiðustu reynsluna á sínum rúmlega 40 ára starfsferli. Hann sagði jafnframt að hefðu yfirmenn bankans vitað af vandræðunum í uppsiglingu hefðu þeir  safnað meira lausafé fyrr.

McKillop fer á eftirlaun á næsta ári en framkvæmdastjóri bankans hefur þegar sagt starfi sínu lausu. Gangi áætlanir um aðkomu ríkisins að bankanum eftir gæti það eignast allt að 60% hlut í honum.

BBC greindi frá.