Lögmenn forðast það oftast nær að verja sjálfa sig frammi fyrir dómara enda samræmist það ekki siðareglum lögmanna.

"Lögmanni ber að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn," segir í siðareglunum. Lögmaður sem ver sig, eða eftir atvikum félag þar sem hann situr í stjórn, er að þessu leyti "samkenndur" hagsmunum sínum.

Afar óalgengt er í dómsmálum, sérstaklega er viðkoma viðskiptum, að stjórnarmenn eða hluthafar verji félögin sín sjálfir fyrir dómi. Gísli Baldur Garðarsson hrl, stjórnarformaður Olís og einn eigenda fyrirtækisins, er undantekning þar á. Hann hefur varið Olís í bæði héraði og Hæstarétti í málum sem tengjast samráði olíufélaganna.

Á báðum dómstigum hefur verið staðfest að samráð olíufélaganna hafi valdið tjóni. Mál olíufélaganna gegn samkeppnisyfirvöldum, vegna ákvörðunar um greiðslu stjórnvaldssekta, er enn til umfjöllunar í dómskerfinu og hefur ekki enn fallið dómur í héraði vegna málsins. Þá er skaðabótamál íslenska ríkisins vegna samráðs olíufélaganna fyrir útboð á þess vegum einnig enn í undirbúningi.

Tæplega fimm ár eru nú liðin frá því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti niðurstöðu samkeppnisyfirvalda um sekt vegna samráðs á árunum 1996 til 2001. Skaðabótamál íslenska ríkisins tengist m.a. samráði olíufélaganna vegna kaupa á olíu fyrir Lögregluna og Landhelgisgæsluna. Ekki liggur enn fyrir hvenær olíufélögunum sem í hlut áttu, Olís, Skeljungi og Keri, áður Olíufélaginu, verður stefnt vegna málsins.

Sjá ítarlega umfjöllun í Viðskiptablaðinu um störf lögmanna í viðskiptalífinu.