© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Þegar stjórnvald fer að amast við félög sem skila ekki ársreikningum eða skattaframtali, þá eru þau yfirgefin eins og sökkvandi skip og nýtt félag stofnað eða tekið í notkun til að halda áfram og þannig koll af kolli. Ekki er að sjá að það sé vandkvæðum bundið að fá menn til að sitja í stjórnum svona félaga, og þess hafa sést nokkur dæmi að þeir séu sóttir á Litla-Hraun ef annað er ekki í boði.

Þetta segir Aðalsteinn Hákonarson, sviðsstjóri eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra. Aðalsteinn ritar grein í nýjasta tölublað Tíundar, fréttablað RSK. Fyrirsögn greinarinnar er Er frelsið of dýru verði keypt?.

„Eitt af því sem breyst hefur verulega á einum eða tveimur áratugum er að nú hafa menn nánast ótakmarkað frelsi til að stofna félög um svo til hvað sem er. Svo er að sjá að enginn sé maður með mönnum nema hann eigi heilu keðjurnar af félögum sem eiga hvert í öðru. Ef illa fer hjá einu þeirra þá er það skilið eftir í reiðuleysi, eignir þess seldar til annars félags í keðjunni eða jafnvel bara teknar í notkun af öðru félagi. Dæmi eru einnig um að félög hafi verið stofnuð og þau hafið viðskipti án þess að semja nokkurn tíma ársreikning eða skila skattframtali,“ segir Aðalsteinn.

Hann telur að efla þurfi skatteftirlit, óheft frelsi og undanþágur í lögum leiði gjarnan af sér óvenjuleg og oft ólögleg viðskipti. Hann segir það flækja málin hversu gríðarlega lögaðilum hefur fjölgað hér á landi á undanförnum árum.

„Skattyfirvöld og innheimtumenn skatta, sem eru tollstjóri og sýslumenn, þyrftu að bæta samstarf sín á milli til að ná meiri árangri í skattheimtu en nú er. Bættar upp­ lýsingar til handa innheimtumönnum myndu gera aðgerðir þeirra síðarnefndu markvissari, og leiða til réttari ákvarðana­ töku um hvenær eigi að beita úrræðum eins og fjárnámi, kröfu um nauðungarsölu og beiðni um gjaldþrot, svo dæmi séu tekin,“ segir í niðurlagi greinarinnar.

„Skattyfirvöld þyrftu einnig úrræði til að bregðast við skipu­ lögðum undanskotum. Þar mætti nefna að geta fært skyldur félags með takmarkaða ábyrgð yfir á eigendur þeirra persónulega, einn eða fleiri, hafi viðkomandi félag ekki sinnt skyldum sínum um skil á gögnum um tiltekinn tíma. Þá mætti lagfæra ýmis ákvæði laga með það fyrir augum að ekki sé allt leyfilegt þó það sé ekki bannað. Auð­ vitað mætti nefna ýmislegt fleira en ef hægt væri að virkja þau úrræði sem hér eru nefnd myndi það bæta ástandið verulega frá því sem nú er.“

Tíund .