Stjórnendur Arion banka segja frétt Viðskiptablaðsins um skuldauppgjör Þorsteins M. Jónssonar, aðaleiganda Vífilfells, vera ranga og ekki hafi verið haft samband við fulltrúa Arion banka vegna vinnslu fréttarinnar.

Orðrétt segir í tilkynningu frá Arion banka: „Frétt Viðskiptablaðsins er röng. Ekki var haft samband við fulltrúa Arion banka vegna vinnslu fréttarinnar.

Bankinn hefur um nokkurt skeið unnið að samkomulagi við Þorstein M. Jónsson vegna skulda hans og félaga honum tengdum við bankann. Samkomulagið er á lokastigum en ekki er tímabært að greina frá efnisatriðum þess að svo stöddu.

Arion banki mun senda frá sér tilkynningu þar sem fram koma öll helstu efnisatriði samkomulagsins eins fljótt og unnt er.," segir í tilkynningunni.

Aths. ritstj.:

Ekki er tilgreint í athugasemd Arion banka hvað sé rangt við frétt Viðskiptablaðsins. Hins vegar er staðfest í tilkynningunni að samkomulag um skuldauppgjör Þorsteins M. Jónssonar sé á lokastigum eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag. Í frétt blaðsins kemur einnig fram að samkomulagið, eins og það lítur út í dag, er háð því að önnur fjármálafyrirtæki komi að lausn málsins. Við vinnslu frétta Viðskiptablaðsins er reglan sú að tala við alla aðila sem koma beint að málum. Eins og oft hefur komið fram getur Arion banki ekki fjallað opinberlega um málefni einstakra viðskiptavina.