Forráðamenn fyrirtækja telja aðstæður í efnahagslífinu nú þær bestu frá því kannanir IMG Gallup hófust að því er kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins. Um 86% aðspurðra töldu þær góðar meðan einungis 2% töldu þær slæmar. Að mati 12% þeirra sem svöruðu eru þær hvorki góðar né slæmar. Hjá þessum hópi ríkir því mjög mikil bjartsýni og mælikvarðinn á hann getur ekki hækkað, enda kemur í ljós þegar horft er fram í tímann að væntingar minnka, tæplega 9% telja aðstæður í efnahagslífinu verða verri eftir 6 mánuði og um 22% eftir 12 mánuði.

Forsvarsmenn í einni atvinnugrein eru áberandi svartsýnastir á efnahagshorfur en það er í sjávarútvegi. Í september þegar þessi könnun var gerð var kvótaárið nýhafið og úthlutað aflamark nokkru minna en hafði verið. Einnig hefur lítið veiðst af loðnu í ár og aflabrögð í öðrum tegundum verið nokkuð misjöfn. Verð afurða hefur einnig lækkað milli ára og íslenska krónan hefur haldist sterk sem er óhagstætt Stjórnendur 31% fyrirtækja töldu að þeir muni fjölga fólki á næstu 6 mánuðum, 60% að fjöldinn yrði óbreyttur og 9% að þeir muni fækka fólki.

Nokkru fleiri ætluðu að fækka fólki á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtæki í öllum atvinnugreinum ætla að fjölga fólki og mest í ráðgjöf og þjónustu (yfir 40% fyrirtækja). Einhver fyrirtæki í öllum atvinnugreinum að frátöldum fjármála- og tryggingafyrirtækjum
ætla að fækka fólki og voru þau flest í iðnaði og framleiðslu. Áberandi flest voru með starfsmenn á bilinu 50-100 manns og ætluðu 14% þeirra að fækka fólki.

Í þessum könnununum eru reiknaðar vísitölur úr svörunum og auðvelda þær
samanburð yfir tíma. Vísitölurnar eru reiknaðar þannig að deilt er í fjöldajákvæðra svara með heildarfjölda svara að frádregnum þeim sem svara hvorki né og útkoman margfölduð með 200. Vísitalan getur þannig tekið gildið 0- 200. Gildið 100 þýðir að það eru jafn mörg jákvæð svör og neikvæð.

Vísitala starfsmannafjölda og veltu hafa vaxið jafnt og þétt frá upphafi
mælinga. Hagnaðarvísitalan vex einnig en hún varð lægst í september í fyrra.

Í 55% fyrirtækja er talið að hagnaður verði meiri í ár en í fyrra en í um
fimmtungi að hann verði minni. Í öllum atvinnugreinum er gert ráð fyrir
meiri hagnaði en minni að frátöldum sjávarútvegi en hagnaðarvísitalan hans
er 92. Það sama á við um veltu, í 42% sjávarútvegsfyrirtækja er gert ráð fyrir minni veltu í ár en í fyrra og einungis í 29% að hún verði meiri. Í langflestum fyrirtækjum í öllum öðrum atvinnugreinum er reiknað með veltuaukningu.

Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir meiri hagnaði og meiri veltu en á landsbyggðinni sem tengist væntanlega staðsetningu sjávarútvegsfyrirtækja.
Eftir því sem þessi könnun festir sig í sessi skapar hún traustari grundvöll til
að draga ályktanir um væntanlega framvindu efnahagslífsins.

Frá hausti 2002 hefur IMG Gallup gert athuganir á stöðu og framtíðarhorfum
stærstu fyrirtækja landsins og mat stjórnenda þeirra á almennum efnahagshorfum fyrir fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands. Kannanir þessar eru gerðar tvisvar á ári og er úrtakið 400 veltuhæstu fyrirtæki landsins. Síðasta könnun var gerð í september og svöruðu forsvarsmenn 305 fyrirtækja. Svarhlutfallið var því um 82%. Með gerð þessara kannana hefur bæst við mikilvægur þáttur við mat á horfum í efnahagslífinu og væntingum fyrirtækjastjórnenda þar um. Í niðurstöðum Gallup kemur fram vísitala ýmissa þátta svo sem vísitala efnahagslífsins, vísitala starfsmannafjölda og hagnaðarvísitala.

Spurningar í þessari könnun eru margvíslegar og eru svör við þeim greind
niður eftir staðsetningu fyrirtækja (höfuðborgarsvæðið, landsbyggð), atvinnugrein, veltu og fjölda starfsmanna. Fyrirtækin eru flokkuð í sjö atvinnugreinar.