Fyrrverandi stjórnendur Kaupthing Singer & Friedlander (KSF), banka Kaupþings í Bretlandi, hugðu ekki nægilega vel upp að lausafjárstöðu bankans og láðist að láta breska fjármálaeftirlitið vita að það hefði ekki aðgang að lánum frá móðurfélaginu heima á Íslandi í bankahruninu í október árið 2008. Þetta er niðurstaða rannsóknar breska fjármálaeftirlitsins á falli KSF.

Fjallað er um rannsóknin og niðurstöðu fjármálaeftirlitsins í breskum fjölmiðlum í dag. Ármann Þorvaldsson var bankastjóri Kaupthing Singer & Friedlander.

Í niðurstöðum skýrslu fjármálaeftirlitsins segir m.a. að eftir að KSF fór í þrot ásamt Kaupþingi í bankahruninu fyrir að verða fjórum árum hafi breska fjármálaeftirlitið hafið rannsókn á falli hans, starfsemi og starfsháttum helstu stjórnenda.

Samkvæmt niðurstöðunum, sem birtar voru í dag, segir að 29. september og aftur 2. október árið 2008 hafi lykilstjórnendur KSF brugðist skyldum sínum, svo sem því að fylgjast með áhrifum af erfiðri lausafjárstöðu Kaupþings á Íslandi á KSF. Bankinn hafði aðgang að eins milljarðs punda lánalínu við móðurfélagið hér en hafði hana ekki í bankahruninu. Stjórnendum KSF mun hafa láðst að greina breskum eftirlitsaðilum frá því, að því er segir í niðurstöðum skýrslu breska fjármálaeftirlitsins. Hvort heldur KSF hafði aðgang að lánalínunni eður ei réð hins vegar ekki örlögum bankans, að mati fjármáleftirlitsins.