Stjórnendur markaðsfyrirtækisins NextCode , sprotafyrirtækis sem Íslensk erfðagreining (ÍE) setti á laggirnar til að selja sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum, eru allir gamlir starfsmenn ÍE.

Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group og forstjóri NextCode, var aðstoðarforstjóri ÍE á árunum 1996 til 2004. Þá stofnaði Jeffrey Gulcher, stjórnarformaður NextCode, ÍE með Kára Stefánssyni og var hann framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs ÍE. Þá var Daniel C. Siu, sölu- og markaðsstjóri NextCode í sama starfi hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Eins og VB.is greindi frá á miðvikudag og fram kom í Viðskiptablaðinu í gær leggja áhættufjárfestingasjóðirnir Polaris Partners og ARCH Venture Partners NextCode til 15 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 1,8 milljarða íslenskra króna. Amgen, móðurfélag ÍE, á svo um 10% hlut í félaginu. Hluturinn er til kominn vegna notkunar NextCode á hugbúnaði ÍE við greiningarvinnu.