Í Viðskiptaþættinum í dag verður litið yfir sögu Vindorku, en það félag átti sér draum um að framleiða byltingarkenndar vindmyllur. Félagið var stofnað árið 1994 en nú þykir sýnt að sá draumur muni ekki rætast - í það minnsta ekki um sinn - og er nú unnið að því að slíta félaginu. Rætt verður við Magnús Kristbergsson, framkvæmdastjóra Vindorku og Stefán Pétursson, stjórnarformann Vindorku, í fyrri hluta þáttarins.

Í seinni hluta þáttarins verður rætt um efnahagsleg áhrif af stangveiði en Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur tekið saman skýrslu þar sem kemur fram að heildar efnahagslegt virði stangveiða sé á bilinu 8-9 milljarðar króna á ári. Óðinn Sigþórsson, formaður Landsambands veiðifélaga ætlar að segja okkur allt um þessa nýju útttekt, en upphæðin hefur komið mönnum ánægjulega á óvart.

Við ljúkum síðan þættinum á því að ræða við Þórð Friðjónsson, forstjóra Kauphallar Íslands, en hann var einn frummælanda á morgunverðarfundi Félags Viðskipta- og hagfræðinga og Kauphallarinnar í morgun, en á fundinum voru menn að velta fyrir sér hlutverki fjármálamarkaðarins í útrás og vexti fyrirtækja.

Þátturinn er sendur út á Útvarpi Sögu, FM 99,4. Þátturinn er endurfluttur klukkan eitt í nótt.