Íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um lærdóma af efnahagskreppunni og verkefnin framundan í Reykjavík þann 27. október næstkomandi. Í tilkynningu á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins segir að ráðstefnan sé til að meta árangur Íslands og fjalla um þau viðfangsefni sem bíða úrlausnar.

Meðal helstu ræðumanna verða nóbelverðlaunahafinn Paul Krugman og alþjóðahagfræðingarnir Willem Buiter og Simon Johnson. Ráðstefnan skiptist í þrjá hlutu. Þátttakendur munu leggja mat á þau úrræði sem notuð voru til að bregðast við kreppunni, svo sem beitingu gjaldeyrishafta og endurskipulagningu bankakerfisins. Þá verður fjallað um það markmið Íslands að standa vörð um velferðarkerfið á sama tíma og ráðist var í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Loks verður rætt hvernig þessi stefnumál voru útfærð í efnhagsáætlun stjórnvalda sem unnin var í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lauk í ágúst síðastliðnum.

Úr tilkynningu:

„Íslendingar hafa sýnt staðfestu og seiglu við að hrinda í framkvæmd flóknum stefnumálum við erfiðar aðstæður,“ sagði Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tilefni af ráðstefnunni. „Allir hlutaðeigandi geta dregið lærdóm af þessari reynslu, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Þess vegna er mér sérstök ánægja að sjóðurinn skuli standa að þessari ráðstefnu.“ Hún sagði ennfremur: „Hagkerfi heimsins eru enn að takast á við afleiðingar fjármálakreppunnar árið 2008 og ég er sannfærð um að sá hópur leiðandi sérfræðinga sem saman kemur í Reykjavík á eftir að hjálpa okkur að draga ályktanir sem að gagni koma fyrir stjórnvöld ríkja, hagfræðinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“

„Efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur skilað miklum árangri við að koma á stöðugleika í íslenskum þjóðarbúskap og stuðla að efnahagsbata,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri og bætti við: „Hér kunna að vera athyglisverðir lærdómar fyrir alþjóðasamfélagið.“

„Við hlökkum til að ræða opinskátt um hið „algera fárviðri“ sem skall á Íslandi árið 2008, um núverandi stöðu og þá lærdóma sem draga má af reynslu Íslendinga. Það gleður mig að geta sagt að gagnvirk samvinna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stuðlaði að því að Ísland hélt velli sem norrænt velferðarríki,“ segir Árni Páll Árnason, efnhags- og viðskiptaráðherra.