Japönsk stjórnvöld hafa endurskoðað hagspá í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgju í síðasta mánuði. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði minni vegna þessa. Mikilvægir atvinnuvegir í landinu, meðal annars iðnaður og útflutningsgeirinn, hafa orðið fyrir miklu höggi og kemur því lækkunin ekki á óvart. BBC greinir frá.

Þetta er í fyrsta sinn í sex mánuði sem stjórnvöld lækka spána en slík spá er gefinn út mánaðarlega. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn endurskoðaði sína spá til lækkunar sl. mánudag.

Miklar skemmdir urðu á mannvirkjum og landi í norðurhluta landsins og framleiðsla verið að miklu leyti lömuð frá náttúruhamförunum. Talið er að kostnaður við uppbyggingu verði um 295 milljarðar dollara.