Nú hefur á ný færst kraftur í undirbúning að viðbyggingu við Menntaskólann á Egilsstöðum og tryggt hefur verið að verkinu verður fram haldið. Málið sigldi í strand síðastliðinn vetur er upp kom ágreiningur um skiptingu kostnaðar við verkið á milli heimasveitarfélaga Menntaskólans og ríkisins.

Ákveðið hefur verið að endurskoða ýmsa þætti við bygginguna, meðal annars að einfalda hönnun hennar með það að markmiði að lækka byggingakostnað án þess þó að rýra notagildið.

Samkvæmt samkomulagi við ríkisvaldið verður nú sett á laggirnar ný bygginganefnd sem í eiga sæti tveir fulltrúar menntamálaráðuneytisins, einn fulltrúi fjármálaráðuneytisins, einn fulltrúi frá Austur-Héraði og einn fulltrúi frá Fellahreppi.

Bæjarstjórn hefur tilnefnt Ágústu Björnsdóttur sem fulltrúa Austur-Héraðs í nýrri byggingarnefnd og Eggert Sigtryggsson til vara.