Stoðir hafa gert athugasemd við frétt Viðskiptablaðsins í gær um fyrirhugaða sölu á TM en í henni sagði m.a. að ,,…sumir furði sig á því að seljandi TM (Stoðir) hafi ákveðið að fara þá leið að láta sölutryggja útboðið á félaginu…", og að ,,…margir spyrji sig: af hverju í ósköpunum að fá sölutryggingu og greiða hugsanlega hundruð milljóna fyrir hana?" Jafnframt segir að ,,ekki hafi fengist svör við því hvers vegna þessi leið var farin.”

Þar sem Viðskiptablaðið leitaði ekki eftir svörum frá Stoðum við vinnslu fréttarinnar, vilja Stoðir koma eftirfarandi á framfæri: "Stoðir leituðu til sjö aðila sl. haust með það fyrir augum að ráða ráðgjafa til að annast söluferli TM. Sex þessara aðila skiluðu inn tilboðum. Tilboð fjögurra aðila voru talin ásættanleg. Tveir þeirra gáfu kost á að veita Stoðum jafnframt sölutryggingu. Úr varð að Stoðir gengu til samninga við Landsbankann um umsjón með söluferli TM og sölutryggingu á öllu hlutafé Stoða í TM.

Það er rétt sem fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að TM er gott og vel rekið félag og líklegt má telja að margir fjárfestar, smáir sem stórir, telji kaup á hlutabréfum í TM áhugaverðan fjárfestingakost. Það er þó ávallt til staðar ákveðin óvissa um hvernig sala á stóru og verðmætu fyrirtæki á borð við TM muni ganga og hvaða verð munu fást. Að mati Stoða var því eftirsóknarvert að geta farið inn í söluferli TM með vaðið fyrir neðan sig, þ.e. að eiga vísa viðunandi sölu á TM ef svo færi að söluferlið skilaði ekki ásættanlegri niðurstöðu. Trúnaður gildir um innihald samninganna við Landsbankann en að mati Stoða eru skilmálar samninganna vel viðunandi. Þess má svo geta að undirbúningur fyrir sölu TM er í fullum gangi og er áætlað að söluferli hefjist í marsmánuði nk. "